Hjá collíhundum finnst alvarlegur augnsjúkdómur sem hefur nokkrar birtingarmyndir sem eru allt frá því að vera nánast einkennalausar til þess að valda algjörri blindu á báðum augum. Um er að ræða vansköpun æðunnar (chorioidea), sjóntaugarinnar og jafnvel líka sjónunnar. Erfðir eru nú taldar tengjast mörgum genum en ekki einu eins og áður var talið.

Misvöxtur í æða- og sjónuhjúp (Chorioretinal dysplasi/CRD) veldur minnstum einkennum og finnst hjá nánast öllum hundunum sem hafa sjúkdóminn. Litarefni vantar í litlag sjónunnar og æðarnar í æðahjúpnum eru óeðlilegar.Til að greina sjúkdóminn er bezt að skoða hvolpa 6 - 8 vikna því í einhverjum tilfellum getur litarefni í sjónunni breiðst út og falið misvöxtinn. Sé hundurinn skoðaður síðar á ævinni getur aukningin á litarefninu hafa "falið" breytingarnar og hundurinn fengið einkunnina heilbrigður sem hann í rauninni er ekki. Sjóntaugarglufa (Coloboma) er galli á sjóntaugardoppunni þ.e. þeim stað þar sem sjóntaugin gengur frá sjónunni til heilans. Þarna getur myndast misstór glufa og fara einkennin eftir því hve stór hún er. Sé glufan stór getur hún valdið sjóndepru eða jafnvel blindu.Á myndunum hér að ofan sést glufan eins og hringur innan í hvíta hringnum (sem er sjóntaugardoppan).Sjónan getur losnað á hluta eða alveg og getur líka verið laus við fæðingu og þá er hvolpurinn blindur. Blæðing getur verið fylgikvilli en þá rifna smáæðar sem tengjast sjónunni og augað getur fyllst af blóði.